Hvað er Judo ?

Hvað er Júdó ?
Júdó er skemmtileg og kröftug bardagaíþrótt, sem krefst bæði líkamlegs atgervis og mikillar andlegrar ögunar.

Íþróttin felst í því að fella og yfirbuga andstæðing sinn. Í uppréttri stöðu býður júdó upp á fjölbreytilegar aðferðir til fella eða lyfta og henda andstæðingnum á bakið.

Í liggjandi stöðu býður íþróttin leiðir, með fjölmörgum fastatökum og lásum, til að halda andstæðingnum niðri, þar til hann gefst upp.
Júdó, sem á rætur sínar að rekja til Japans, þróaðist úr ýmsum bardagalistum sem samuraijar og lénsherrar höfðu notað í hundruð ára.

Þótt stór hluti júdótækninnar sé komin úr bardagalistum, sem voru hannaðar til að meiða, limlesta eða drepa andstæðinginn í raunverulegum bardögum, hefur  bardagatækninni verið breytt þannig að iðkendur geta æft og reynt þessa íþrótt á öruggan hátt án þess að meiða hvern annan.

Ólíkt karate byggir tæknin í júdó ekki á spörkum eða höggum af neinu tagi.

Ólíkt kendo eru ekki notuð nein áhöld eða vopn í júdó. Í júdó eru einfaldlega tveir andstæðingar, sem með tökum sínum  á júdóbúningum hvors annars, nota styrk jafnvægis, afls og hreyfingar til að reyna að yfirbuga hvorn annan. Flóknara er það ekki. Í einfaldleikanum liggur engu að síður margslungin íþrótt sem kostar mikla áreynslu, tíma og úthald ásamt strangri líkamlegri og andlegri þjálfun.

 

jigorokano